FFF sér um alla kennslu í fallhlífastökki á Íslandi sem framkvæmd er utan björgunarsveita. Bæði er notast við aðferðirnar IAD (Instructor Assisted Deployment) sem og hraðþjálfun í frjálsu falli (AFF). Þessar aðferðir eru að mörgu leyti misjafnar.

IAD kennsluaðferðin byggur á því að koma nemandanum í gegnum adenalínáfallið sem fylgir því að stökkva úr flugvél í fullkomnu lagi, þá byrjar nemandinn á 8 klukkustunda bóklegu námskeiði og tekur svo fjögur stökk úr 3 – 4 þúsund feta hæð þar sem kennari fylgir nemandanum út í hurðina og sér um að opna fallhlífina fyrir hann um leið og stokkið er út. Ekki er um að ræða neitt frjálst fall fyrr en við fimmta stökk, en þá má skipta um kennsluaðferð og stökkva út í fullri hæð (12.000 fet) með einn kennara sér við hlið sem aðstoðar eftir þörfum.

AFF (accelerated freefall) kennsluaðferðin er einfaldasta og af flestum álitin besta leiðin til að læra fallhlífarstökk. Á íslensku nefnist hún ,,hraðþjálfun í frjálsu falli” en þá stekkur nemandinn, að loknu 8 tíma bóklegu námskeiði, strax úr flugvélinni í fullri hæð (12.000 fet) í fyrsta stökki með tvo kennara sér við hlið. Þessi aðferð skiptist í 7 stökk, hvert stökk samanstendur af tilteknum æfingum sem nemandinn framkvæmir í frjálsa falinu. Kennararnir meta árangurinn hverju sinni og standist nemandinn æfingarnar, hafi hugann við hæðarlækkunina og líkamsstöðuna og að sjálfsögðu muni eftir að opna fallhlífina í réttri hæð, færist nemandinn á næsta stökk. Þegar nemandinn hefur lokið þessum 7 stökkum þá fær hann réttindi til að stökkva solo stökk á viðkomandi stökksvæði. Þegar 25 stökkum er náð fær nemandinn rétt til að sækja um skírteini sem veitir viðkomandi rétt til að stökkva hvar sem er í heiminum.

Fyrstu námskeiðin eru haldin um miðjan maí (dagsetningar eru þó háðar veðri). Til að skrá þig þá endilega sendið okkur póst á skydive(hja)skydive.is eða hringið í síma 699-5867.