Ýmsar spurningar

 • Hvað er lágmarksaldur til að læra fallhlífastökk?

Til að læra fallhlífastökk þá er lágmarksaldurinn 18 ára. Þeir sem eru 16-18 ára geta fengið undanþágu frá þessu með því að fá báða foreldra á stökksvæðið til að skrifa undir plagg sem gefur leyfi forráðamanna til að stökkva undir lágmarksaldri.

 • Verð ég að skrifa undir einhver skjöl?

Já á Íslandi eru sömu reglur og annarstaðar í heiminum þar sem hver og einn stökkvari hvort sem hann er nýr eða vanur stökkvari að skrifa undir afsölun á ábyrgð viðkomandi. Þetta skjal staðfestir það að viðkomandi stökkvari er heill heilsu, heill á geðsmunum og hvorki hann né ættingjar hans muni fara í málsókn ef eitthvað kemur fyrir viðkomandi aðila.

Fallhlífastökk er álitið sem áhættusport í háum áhættuflokki og því er þetta nauðsynlegt gagnvart tryggingafélugum.

 • Hvaða tegund af stökki á ég að prufa?

Við erum þeirrar skoðunnar að öll stökk eru góð stökk. Ef þú ert að leita eftir því að prufa bara eitt stökk án þess að eyða of miklum tíma í það þá er best að prófa farþegastökk. Þá er bara mætt um 45 min fyrir áætlað flug þar sem þú færð allar grunnupplýsingar um stökkið, öryggisráðstafanir og annað sem þú þarft að vita.

Ef þú hefur meiri áhuga á því að læra fallhlífastökk og stökkva sjálfur þá getur þú valið á milli IAD eða AFF stökks. Á þessum leiðum er grundvallarmunur.

Í IAD þá er byrjað á því að kennari fer með þér í 4000 feta hæð, þar fylgir hann nemandanum út í hurð og sér um að opna fallhlífina þegar nemandinn stekkur úr vélinni. Fallhlífin byrjar samstundis opnaunarferlið þannig að þú þarft bara að sjá um að stýra fallhlífinni til jarðar.

Í AFF kennslu þá ferð þú með kennurum upp í 12.500 feta hæð þar sem þeir stökkva úr flugvélinni með þér. Þú færð ákveðnar æfingar sem þú þarft að framkvæma sem og að muna eftir að opna fallhlífina sjálf(ur) í réttri hæð. Kennararnir þjálfa þig í frjálsa fallinu með handabendingum ef þú ert í rangri stöðu eða eitthvað sem þarf að lagfæra. Þannig færðu kennslu frá fyrstu hendi og þá ert þú mun fljótari að leiðrétta það sem þú gerir rangt í frjálsu falli.

Oft er þessum aðferðum blandað saman, þe. að fólk prófar oft að byrja á IAD námskeiði, tekur þar 2 stökk og síðan í framhaldinu tekur fólk ákvörðun um að halda áfram námi í fallhlífastökki og þá er oft best að skipta yfir í AFF kennslu því sú aðferð er lang fljótlegust til að læra að stökkva sjálfur.

 • Hvernig fötum á ég að vera í?

Þú þarft að vera í þægilegum strigaskóm og fötum sem hæfa árstíðinni sem er í gangi. Passa þarf að hvernig sé neitt sem flaksar eða ekki neinir krókar ss. á skóm og slíku. Gera þarf ráð fyrir því að það er töluvert kaldara uppi í háloftunum þannig að auka peysa og mögulega föðurland ef það er kalt í veðri. Við lánum þér stökkgalla á staðnum en þeir eru ekki hitaeinangrun.

 • Hvað ef ég er með gleraugu eða linsur?

Það er ekkert vandamál. Við lánum þér hlífðargleraugu sem þú notar til að hlífa augunum.

 • Hvað ef ég er kominn á eldri ár eða í lélegu líkamlegu formi?

Fallhlífastökk er ekki fyrir alla að stunda. Það er töluverð líkamleg og andleg áreynsla að stunda fallhlífastökk. Því er það nauðsyn fyrir þá sem ætla að prófa að stökkva að þeir séu við góða geðheilsu, viðhaldi góðu líkamlegu ástandi og séu algjörlega án fíkniefna. Vigtar og stærðartakmarkanir geta átt við þig.

Hámarksþyngd í kennslu og farþegastökk er 105 kg. Stökk kennari getur neitað farþega að fara í stökk ef hann verður var við eitthvað sem getur ógnað öryggi hans, farþega eða annara stökkvara í flugvélinni.

Fallhlífastökk er alvöru mál að framkvæma, því stöndum við fastir á því að viðkomandi nemandi hafi fulla trú á sjálfum sér til að stökkva, bregðast við óvæntum uppákomum og lenda fallhlífinni sjálfir. Ef vinirnir eru að draga þig með og þú ekki viss um að þú verðir örugg(ur) í stökkinu eða líður illa yfir því að fara þá ráðleggjum við viðkomandi að hætta við. Ef kennari sér að viðkomandi er ekki örugg(ur) með að stökkva þá getur hann neitað nemanda um að fara í loftið.

 • Hversu hörð er lendingin?

Ferkantaðar fallhlífar (‘Ram-Air’) fljúga eins og flugvélar í gegnum loftið. Hægt er að stjórna þeim á allan hátt ss. að beygja, hægja á sér eða stoppa þegar lent er á jörðinni. Nemendafallhlífar eru stórar og hannaðar til að vera flogið af þeim sem ekki hafa reynsluna. Þegar þú lendir mátt þú eiga von á því að það sé svipað og að stíga niður af stól. Að sjálfsögðu er hægt að klúðra lendingu á þeim þannig að það verði harðari lending en námskeiðið er til að kenna þér að lenda þeim rétt.

 • Er hoppað alla daga sumarsins?

Nei, við stökkvum ekki með farþega né nemendur þegar það rignir eða það sé mikill vindur. Einnig metum við stöðu skýja í kringum stökksvæðið hvort það sé óhætt að stökkva með nemendur og farþega. Oft er sagt að það sé ekkert sport til sem þarf jafn mikla þolinmæði fallhlífastökk á Íslandi. Oft getum við eytt heilu dögunum starandi upp í háloftin á meðan einhver lægð er að klára að ganga yfir. Þannig að þú mátt alveg búast við því að koma á svæðið í sól og fínu veðri en eftir 30 minútur þegar þú ert á leið í vélina þá hættum við að stökkva þann daginn vegna veðurs.

 • Hvað kostar að stökkva í fallhlíf?

Fallhlífastökk hefur aldrei verið og verður aldrei ódýrt sport. Talsverður kostnaður er í námskeiðum sem og búnaði sem þarf til að stunda sportið.

Verðskrá okkar er birt um leið og verðin á flugvélabensíni liggur fyrir á hverju vori. Við náum því yfirleitt í enda Apríl en þar sem okkar yndislegu olíufélög hafa verið að hækka flugvélabensin hraðar en við náum að skipta um nærbuxur getur hún breyst yfir sumarið. Við erum að reka þetta á kostnaðarverði þannig að ef einhverjar hækkanir eiga sér stað þá verðum við að fylgja þeim.

 • Þurfa nemendur að borga kennurum eitthvað sérstaklega?

Nei, kennslupakkarnir innihalda allt sem þú þarft að borga. Að sjálfsögðu er það góð venja að gefa kennaranum góðan mjöð af afloknu námskeiði því þá er aldrei að vita hvað hann fer að segja þér varðandi sportið ss. frægðarsögur eða annað skemmtilegt.

Sertækar farþegastökks (Tandem) spurningar.

 • Hvernig er þjálfuninni háttað fyrir farþegastökk (Tandem)?

Þú þarft að mæta í það minnsta 45 min fyrir áætlað stökk til að fá grunnkennslu og yfirlit yfir það sem mun eiga sér stað í stökkinu. Ef þú ert ekki mættur í tíma þá getum við átt það til að setja annan farþega í staðinn fyrir þig og þú gætir þá þurft að bíða þar til losnar slott fyrir þig. Eftir þessa grunnþjálfun er farið í loftið eins fljótt og auðið er.

 • Hversu langur tími fer í farþegastökk?

Grunnþjálfunin tekur 30-45 mínútur og síðan tekur stökkið sjálft um 1 klst. þanng að 2-3 tímar eru lágmarkið. Ef þú kaupir vídeó töku af stökkinu getur þú þurft að bíða aðeins eftir henni á meðan verið er að klippa það saman og setja á DVD disk. Við ráðleggjum þér að hafa 1/2 dag fyrir þér þannig að þú getir notið þess að slappa aðeins af fyrir stökkið og upplifuninnar sem fylgir stökkinu sjálfu sem og klukkustundanna eftir það því adrenalínið tekur alltaf smá tíma að síast úr blóðinu.

Best er að hafa bókað stökkið fyrirfram hjá okkur þannig að þú eigir öruggt pláss þann daginn. Við getum ekki ábyrgst það að þú komist í loftið ef þú átt ekki pantað.

 • Hvað bíður eftir að Tendem stökkinu er lokið?

Ef þú ert ákveðin(n) í því að halda áfram og fara á námskeið þá tökum við niður pantanir á næstu námskeið á staðnum. Þegar námskeiðsstökkum lýkur þá færð þú leyfi til að stökkva Solo á íslenskum stökksvæðum þar til 20 stökkum er náð en þá getur þú sótt um A-skírteini hjá Fallhlífasambandi Íslands. Það gidir sem alþjóðlegt skírteini á öll stökksvæði í heiminum.

 • Verð ég að fara í farþegastökk áður en ég fer á námskeið?

Nei, þú getur byrjað beint í námskeiði án þess að fara í farþegastökk fyrst. Það byrjar með 6-8 stunda bóklegu og verklegu námskeiði áður en þú hoppar úr flugvélinni. Kíktu á dagskránna okkar varðandi tímasetningar á námskeiðunum.

 • Get ég skipt kostnaði með öðrum stökkvara á myndbandsupptöku af stökkinu?

Nei, hvert myndbands stökk er einungis af einum nemanda/farþega.

 • Hvað ef að fallhlífin opnast ekki?

Allir fallhlífabakpokar eru með 2 fallhlífum, þe. aðal og varafallhlíf. Ef upp kemur bilun eða það að aðal fallhlífin fari ekki rétt úr pokanum þá er kennarinn sem fer með farþegann sem og nemendur þjálfaðir í því að klippa hana í burtu og opna varafallhlífina. Varafallhlífin er álitin 99,99995% örugg þar sem hún er alltaf pakkað reglulega af sérmenntuðum pökkurum sem hafa farið á sérstakt námskeið í fallhlífapökkun. Það eru stjarnfræðilegar líkur á að báðar fallhlífar klikki eða bili en það er þó alltaf þessi smá möguleiki fyrir hendi og því er þetta álitið áhættusport.

 • Get ég orðið lasinn eða mun ég æla í stökkinu?

Sumt fólk getur orðið flugveikt þegar komið er undir fallhlíf en það gerist aldrei í frjálsu falli. Ef þú þjáist af flug eða sjóveiki skalt þú ráðfæra þig við þinn lækni varðandi hvort þú getir farið í fallhlífastökk. Rétt er að benda á það að bannað er að vera undir áhrifum af lyfjum sem eru merkt með rauðum þríhyrning þegar stokkið er. Við getum flogið fallhlífunum eins og versta rússíbana en einnig getum við flogið þeim eins og þú værir sitjandi heima í leðursófasettinu. Láttu okkur bara vita hvort þú vilt ;o).

Sértækar Static line/AFF námskeiðs spurningar.

 • Þarf ég að bóka námskeið?

Já, þú verður að bóka þig á bóklegt námskeið sem haldið er nokkrum sinnum yfir sumarið. Hafðu samband við okkur varðandi lausar dagsetningar.

 • Hverjar eru líkamlegar kröfur fyrir námskeið?

Þú verður að vera í þokkalega góðu formi til að fara á námskeið hjá okkur. Hámarksþyngd er 105 Kg. Ef þú átt í vandamálum ss. með hjarta, sykursýki eða annan sjúkdóm sem heftir þig líkamlega þá er nauðsynlegt að þú ráðleggir þig við þinn lækni um hvort þú sért í formi til að stökkva í fallhlífastökk. Einnig verður þú að láta okkur vita ef þú ert með einhvern sjúkdóm sem háir þér líkamlega eða andlega. Kennarinn þinn tekur síðan ákvörðun í samræmi við ráðleggingar þinns læknis um hvort þú sért hæfur til að stökkva.

 • Hver er þjálfunin fyrir IAD kennslustökk eða AFF kennslustökk?

Í bóklega námskeiðinu er farið ýtarlega yfir allan búnað, virkni hans og hvað getur komið uppá eða bilað í stökkinu. Einnig eru verklegar æfingar í að bregðast við þessum bilunum. Yfirleitt er það 6-8 tímar sem fara í þetta undirbúningsnámskeið. Eftir þetta námskeið þá ert þú hæf(ur) til að stökkva í fallhlíf. Ef þú stekkur ekki í heilan mánuð þá getur þú þurft að taka upp eitthvað af þjálfuninni eða endurtaka síðsta stökk.

 • Hversvegna tekur grunnþjálfunin fyrir farþegastökk (Tandem) svona mikið minni tíma en AFF þjálfunin?

Öll grunnþjálfun á námskeiði miðast við að nemandi geti bjargað sér sjálfur í stökkinu og brugðist við því sem kemur upp í stökkinu. Það er vegna þess að kennararnir fylgja nemandanum í loftinu alveg þangað til fallhlífin er opnuð en eðlilega getum við ekki fylgt nemandanum lengur en það. Í Tandem stökki þá sér kennarinn um flesta þessa hluti og því þarf farþeginn ekki að hafa þessa kennslu á bak við sig fyrir stökk.

 • Eftir fyrsta stökkið mitt, hvað tekur þá við?

Eftir fyrsta stökkið þitt þá tekur þú ákvörðun um hvort þú vilt halda áfram í náminu. IAD námskeið er 17 stökk að lágmarki og AFF námskeið er uppbyggt af 7 þrepum sem nemandinn þarf að klára. Ef nemandinn stenst allar æfingar og man eftir að opna fallhlífina í tíma þá fer hann á næsta þrep. Þegar þú hefur klárað öll kennslustökk þá máttu stökkva Solo (ein(n) með sjálfum þér) á íslenskum stökksvæðum. Á meðan nemandinn er að safna sökkum og reynslu til að sækja um A skírteini þá er nemandinn undir smásjá hjá kennurum sem fylgjast með þér í undirbúningi stökksins, umgengni við búnaðinn, hvað þú gerir í flugvélinni og í lendingu. Þegar þessari reynslu hefur verið náð þá getur þú sótt um A skírteini hjá Fallhlífasambandi Íslands en það skírteini gefur þér réttindi til að stökkva hvar sem er í heiminum. Til að fá þetta skírteini úthlutað þá þarft þú að sýna fram á kunnáttu bæði í lofti sem á landi skv. kröfum Fallhlífasambands Íslands.

 • Hvað þarf ég að gera til að fá skírteini?

Til að fá útgefið skírteini frá Fallhlífasambandi Íslands þá þarftu lágmark 20 stökk, færni í frjálsu falli, sýna fram á þekkingu á búnaði og pökkun hans. Allt er þetta spurning um þekkingaruppbyggingu og áhuga nemandans um hversu lengi hann er að klára þessi atriði en flestir hafa rétta þekkingu eftir 20 stökk. Allt kostar þetta áhuga, peninga og tíma hjá nemandanum til að klára pakkann en kennarar okkar eru allir af vilja gerðir að hjálpa þér við þessi atriði. Láttu okkur endilega vita hvernig við getum hjálpað þér í þessari þekkingar uppbyggingu hjá þér.